Möðrudalspresturinn

Á fyrri dögum var prestur nokkur á Möðrudal á fjalli, er bróður átt hafði í sveitum niðri, hver umboð haft hafði yfir jörð prestsins, honum nálægri, og fært svo prestinum á hverju hausti afgjald af jörðunni.
Eitt haust, eftir vana, kemur hann með þetta afgjald til bróður síns að Möðrudal; var þá prestur ei nema einn eftir orðinn, því allt heimilisfólk hans var þá í strá niður fallið (kann ske af stóru plágunni eður svarta dauða).
Prestur fagnar vel bróður sínum og býður honum til kirkju um kvöldið, og sitja þeir þar langt fram á kvöld; fylgir hann honum síðan til baðstofu og skipar honum þar sæti. Þá heyrði hann í myrkrinu, að fjölgar fólk í baðstofunni; mælti þá prestur, að það skyldi skemmta eftir vana; tekur það þá til að fremja dansleika og kvæðendisskap, og er nú komumanni lítið um þetta gaman, þar hann skelfur og titrar af ótta og hræðslu í bekknum.
Þegar þetta fólk hafði lengi eftir sinni vild dansað, þá býður prestur því ljós að kveikja og hætta þessum dansleikum. Svo var það gert sem hann skipar, ljós á borð borið og fæða fram reidd, en hann sér þó engan mann. Neytir hann með presti mjög lítils, en drekkur þó hálfu minna.
Eftir máltíð var ljós eftir þeim til hvílu borið; vísar þá prestur honum til rúms; fann þá komumaður af sér dregna sokka og skó. Prestur fer þá líka að hvílast.
Eftir þetta koma tvær ungar og leikfullar stelpur að rúmi hans (hvað honum þó fyrst var dulið) og vildu leika sér við hann; tóku til að kyssa og klappa honum, en honum varð mjög felmt við. Síðan tóku þær að rífa ofan af honum fötin, svo nú tekur að versna gamanið. Þá varð prestsbróðir svo hræddur, að hann vissi varla, hvar hann var, og kallaði, að einhver veitti sér ónæði, hann hefði hvorki frið né ró í rúminu. Þá hrópaði prestur af mesta megni, sagði þær örmu dubbur og hrakstelpur skyldu sjá manninn í friði og leyfa honum að hafa hvíld og náðir. Heyrði hann þá, að fólk kallaði í hverju rúmi.
Ekki vildi honum svefnsamt verða um nóttina, því strax sem dagaði, pakkar hann sig á fætur með mesta flýti og út að kirkjudyrunum; gengur hann þar um gólf, þar til prestur kemur til hans og segir hann muni litlar náðir í nótt haft hafa þar sem hann sé svo árla á fótum. Hinn kvað það satt vera og segir sér þyki nokkuð kynlegt og óeiginlegt hér að vera, og býður hann þá klerki með sér í byggð að fara, hvað hann ei þekkjast vill; segir sér þyki þar nógu skemmtilegt og gott að vera.
Hinn þakkaði guði gæfuna, að hann slapp og komst lífs af; skildi svo við bróður sinn og reið sinn veg, sem hraðast kunni, heim til síns heimilis.
Eftir það, þegar til Möðrudals var aftur vitjað, var bærinn í eyði, og sást enginn maður. Þá var og klerkur líka horfinn, og hefur ei síðar til hans spurst.

 

Síðast uppfært 03. apríl 2009