- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Þriðjudaginn 18. júlí var haldinn íbúafundur í Valaskjálf, til upplýsingar fyrir Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.
Á fundinum fóru Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, Ómar Bragi Stefánsson, frá Ungmennafélagi Íslands, og Erla Gunnlaugsdóttir, fyrir hönd UÍA, yfir landsmótið, fyrirkomulag þess og undirbúning.
Björn ræddi hlutverk sveitarfélagsins og íbúa þess sem gestgjafa mótsins. Undirbúningur keppnissvæða og ýmissa praktískra atriða sem snúa að sveitarfélaginu gengur vel og er ýmislegt búið að gera svo mótið gangi sem best fyrir sig. Þá fór Björn vel yfir það hvernig keppnishald og Unglingalandsmótið í heild sinni getur haft áhrif á daglegt líf íbúa á meðan á því stendur, en nánari upplýsingar verða sendar íbúum með dreifibréfi í næstu viku. Einnig nefndi Björn nauðsyn þess að sveitarfélagið og íbúar allir taki höndum saman um að taka þátt í mótinu með einum eða öðrum hætti, mæti á viðburði, hafi umhverfi sitt snyrtilegt og hjálpist að við að taka vel á móti þeim fjölda fólks sem sækir Fljótsdalshérað heim um verslunarmannahelgina.
Ómar Bragi fór yfir Unglingalandsmótið eins og það snýr að UMFÍ og keppnina sem slíka. Keppt verður í 23 keppnisgreinum, afar fjölbreyttum, á amk. tíu stöðum í sveitarfélaginu og búist er við því að allt að 10.000 manns verði á svæðinu um verslunarmannahelgina. Ungmennafélag Íslands hefur staðið fyrir Unglingalandsmóti, sem er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð, síðan árið 1992 og hefur mótið ætíð verið vel sótt. Mótið er opið öllum á aldrinum 11-18 ára, óháð skráningu í íþróttafélag. Fyrir utan keppnina sjálfa er fjölbreytt afþreying í boði alla mótsdagana fyrir unga sem aldna. Sem dæmi má nefna íþróttaleika fyrir 10 ára og yngri, hoppukastala, kvöldvökur, smiðjur af ýmsu tagi og fleira og fleira.
Erla, sem starfar fyrir UÍA, sagði frá því sem starfsfólk og aðrir á vegum Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands vinna að í sambandi við Unglingalandsmót. Meðal þeirra verkefna er mönnun allra starfa, en þar eru sjálfboðaliðar mikilvægastir og án þeirra eru engin mót af þessari stærðargráðu haldin. Enn er hægt að skrá sig til starfa við mótið, en Erla ítrekaði það að hægt er að stjórna því hversu mikið hver og einn tekur að sér, allt frá nokkrum klukkustundum til margra daga, en allt telur. Og ekki telur það bara sem vinna við mótið, heldur fá íþróttafélög og deildir greitt fyrir þá sjálfboðaliða sem starfa í þeirra nafni og getur Unglingalandsmót því verið töluverð fjáröflun, til viðbótar við það að vera góð skemmtun og stuðningur við íþróttahreyfinguna.
Ljóst er að mikil tilhlökkun er fyrir Unglingalandsmótinu í ár, enda keppni með fjölbreyttu sniði, gríðarlega mikil og margvísleg afþreying í boði alla mótshelgina og veðrið verður eflaust eins og best verður á kosið, svo þau Björn, Erla og Ómar hvetja alla til að mæta, keppa, starfa og skemmta sér á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.