- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Þriðjudaginn 10. október 2017 voru haldnir fræðslufundir í Egilsstaðaskóla þar sem Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsóknum og greiningu kynnti niðurstöður rannsókna á heilsu og líðan barna á Fljótsdalshéraði og Guðrún Dóra Bjarnadóttir, geðlæknir, fræddi foreldra um fíkniefni og skaðsemi þeirra.
Var fræðslufundunum skipt í tvennt, klukkan 17:00 fengu foreldrar nemenda í 5.-7. bekk kynningu á niðurstöðum rannsókna á heilsu og líðan barna. Þar kom Margrét Lilja m.a. inn á nauðsyn þess að virða aldurstakmörk á samfélagsmiðlum, að byrja forvarnafræðslu nógu snemma og minnti á mikilvægi þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi og samveru barna og foreldra sem verndandi þætti.
Á seinni fundinn voru foreldrar nemenda í 8.-10. bekk og ME boðnir velkomnir á bæði kynningu Margrétar Lilju og fræðslu Guðrúnar Dóru um fíkniefni og áhrif þeirra á líkamlega og andlega heilsu ungs fólks. Var sá fundur gríðarlega vel sóttur og gaman að sjá foreldra taka unglingana sína með, enda bæði Margrét Lilja og Guðrún Dóra með fræðslu sem átti fullt erindi til ungmenna á Héraði.
Það var ótalmargt fróðlegt sem kom fram í máli beggja sérfræðinga dagsins. Niðurstöður rannsókna á heilsu og líðan ungs fólks á Fljótsdalshéraði voru almennt mjög góðar, þó svo að þar sé einnig að finna nokkra punkta sem vert er að staldra við og skoða. Þá er afar mikilvægt fyrir foreldra og alla þá sem vinna með börnum og unglingum að sjá að forvarnastarf og fræðsla virkar og að nauðsynlegt er að halda ótrauð áfram á þeirri góðu braut sem við höfum verið á síðustu ár. Niðurstöður fyrir Fljótsdalshérað verða settar á heimasíðu sveitarfélagsins sem allra fyrst fyrir áhugasama.