- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Líkt og undanfarin ár er mikil umferð yfir Öxi, þrátt fyrir að vegurinn sé mjór og hlykkjóttur malarvegur. Umferðartalning Vegagerðarinnar sýna mikilvægi þess að þessi vegtenging verði endurgerð og komið í nútímalegt horf, til hagbóta fyrir íbúa fjórðungsins og alla þá ferðamenn sem kjósa að fara stystu leið milli áfangastaða sinna.
Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs 26. júní sl. var eftirfarandi bókun gerð í framhaldi af umræðum um vegabætur á þessari leið:
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs leggur áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í framkvæmdir við þjóðveg 1 í Skriðdal og heilsársveg um Öxi.
Áður hefur verið vakin athygli á þeim samgöngubótum sem því fylgir fyrir fjórðunginn, en sveitarfélögin beggja megin Axar tilheyra sama þjónustusvæði hvað varðar félagsþjónustu, málefni fatlaðra og brunavarnir. Greiðar samgöngur um Axarveg eru því mikilvægar og til hagsbóta fyrir allt Austurland, auk þess sem slíkt styttir akstursleiðina frá Reykjavík til Mið-Austurlands um 71 kílómetra með tilheyrandi sparnaði á tíma og kostnaði, að ekki sé minnst á öryggisþáttinn.
Þrátt fyrir bágborið ástand vegarins í dag er ljóst að stór hluti ferðalanga velja þessa vegtengingu umfram aðra valkosti.
Þess er því vænst að, líkt og í öðrum landshlutum, verði lausnir er leiða til hagkvæmni og styttingar leiða innan sem og á milli landshluta hafðar að leiðarljósi við stefnumarkandi ákvarðanatöku stjórnvalda varðandi framtíðar vegtengingar er snúa að Austurlandi.